Hver er Jóhanna Jónas?
Í ein 32 ár hef ég haft óbilandi áhuga á sjálfsvinnu, sjálfsþroska, og sjálfsheilun. í þessi 32 ár átti ég meðal annars langan starfsferil sem leikkona Í USA og á Íslandi, og síðar líka sem magadanskennari og veitingastjóri á Grænum Kosti. Þessi sterki áhugi á mannrækt og sjálfsvinnu leiddi mig á endanum í Barböru Brennan School of Healing. Þaðan útskrifaðist ég eftir 4 ára nám í maí 2013 sem Brennan heilari/orkuþerapisti. Í maí 2015 útskrifaðist ég síðan aftur úr sama skóla eftir 2 ára framhaldsnám í Heildrænni samtalsmeðferð. Og loks vorið 2017 útskrifaðist ég úr sama skóla sem kennari í Brennan heilunarfræðum.
Ég hef núna starfað sem kennari við Barböru Brennan Shcool of Healing frá árinu 2017 m.a. í Flórdía, USA og Oxford, Englandi. Um þessar mundir gegni ég stöðu yfirkennara á 4 ári skólans í Oxford, Englandi, og fer erlendis annan hvern mánuð yfir vetrartímann til að sinna þeim störfum. Þegar ég er ekki erlendis að kenna þá starfa ég sem meðferðaraðili í Rósinni, Bolholti 4 í Reykjavík, ásamt ýmsu námskeiðahaldi og sköpun á hugleiðslum og námskeiðsefni.

Kynni mín af Barböru Brennan School of Healing hafa umbreytt lífi mínu. Þau hafa sýnt mér fram á hvers megnug þessi sjálfsheilunar og sjálfsumbreytingarvinna getur verið, bæði hvað varðar mig sjálfa og aðra. Mig langar til að koma þessari þekkingu á framfæri svo fleiri geti notið ávaxtanna sem ég hef uppskorið.

Nánar um mig í stóru og smáu:
Ég er fædd 3 ágúst 1964 og uppalin í Hafnarfirðinum. Er dóttir Jónasar Bjarnasonar kvensjúkdómalæknis, heitins, og Jóhönnu Tryggvadóttur, heitinnar, jógakennara og viðskiptafrumkvöðuls. Ég gekk í Víðistaðaskóla og útskrifaðist seinna með stúdentspróf úr Verslunarskóla Íslands.
Leiðin lá til Bandaríkjanna þar sem ég útskrifaðist með BA í leiklist úr Boston University vorið ´90. Eftir útskrift vann ég síðan í ein 2 ár við leiklist í New York og Los Angeles. Kom heim til Íslands vorið ´92 og starfaði næstu árin m.a. í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, hinum ýmsu sjálfstætt starfandi leikhúsum, við sjónvarp, útvarp, kvikmyndir og talsetningar.
Á árunum ´98-2000 upplifði ég sérlega mikla erfiðleika í lífi mínu. Var komin í þrot í starfi, var yfirkeyrð og stóð í erfiðum skilnaði. Ég upplifði sjálfa mig með síþreytu og örmögnun, glímdi við átröskun, ýmsa líkamlega vanlíðan og mikla depurð. Vissi varla til hvaða ráða ég átti að taka til að rétta líf mitt við. Á þessum tíma var ég líka að byrja að stunda hugleiðslu sem var að mörgu leyti minn bjargvættur.
Ég ákvað þá að taka ábyrgð á mínu lífi, leita mér hjálpar og skoða hvað mætti betur fara hið innra og ytra. Upphófst nú mikil sjálfsvinna og smám saman á næstu árum fór að horfa til betri vegar. Seinna hef ég þakkaði mínu sæla fyrir þessa erfiðleika því þeir höfðu leitt til mikils þroska og kom sá tími þar sem mér fannst mér aldrei hafa liðið betur á ævinni. Sjálfsvinnan hélt þó auðvitað áfram, gerir enn og mun líklega endast lífið!
Svo var það árið 2008 að ég komst í kynni við Barböru Brennan School of Healing fyrir tilstilli góðra vina. Ég ákvað að fara á vit ævintýranna í langvinnu 4 ára námi í þessum krefjandi skóla haustið 2009. Í stuttu máli sagt að þá er þetta að mínu mati stórkostlegur skóli sem ég þakka mínu sæla að hafa komist í kynni við. Mér lánaðist líka á þessum árum að starfa sem Veitingastjóri á Grænum Kosti sem var einnig frábær lærdómur og einstaklega ánægjuleg reynsla. (Ef vilt vita nánar um námið og skólann smelltu hér).
Eins og áður segir þá útskrifaðist ég úr Barböru Brennan School of Healing 2013 sem Brennan Healing Science Practitioner (Brennan heilari/orkuþerapisti), 2015 úr Heildrænni samtalsmeðferð, 2017 sem kennari. Nú langar mig fátt annað en að verða öðrum til hjálpar út frá allri minni fenginni reynslu og þekkingu.
Í djúpu þakklæti fyrir allt sem ég hef reynt, lifað og lært.