Blogg & hugleiðingar
TÖFRAMÁTTUR ÞAKKLÆTIS – GREIN – HUGLEIÐINGAR
- 24. september, 2024
- Höfundur: Jóhanna Jónasar
- Flokkur: Fréttir

AÐ IÐKA ÞAKKLÆTI
Í mörg á hefur þakklæti verið mér ofarlega í huga. Ég hef stundað það um árabil meira og minna að iðka þakklæti; að þakka markvisst Uppsprettunni, Ljósinu, Almættinu, Guði fyrir mína gæfu í lífinu í smáu og stóru; allt frá því að hafa rennandi vatn, mat að borða, peninga sem ég á þá stundina, rúmið mitt góða, tækifærin sem ég hef fengið sem og þann lærdóm sem ég hef dregið af erfiðum reynslum í lífinu o.s.frv.
Ég hef fundið í gegn um árin hversu vel það lætur mér líða og hef í gegnum mína menntun og vinnu undanfarin ár verið meðvituð um rannsóknir á þakklætisiðkun og áhrif hennar á líkama og sál. Ég hef líka leitað að bókmenntum um þakklæti þar sem mér finnst þetta svo öflugt tól í tækjaboxi betra lífs, en þar finnst mér ég hafa komið tómhent niður og ekki fundið neitt markvert eða grípandi á síðustu árum. Fyrr en nú!

Einn eða tveir yndislegir skjólstæðingar mínir bentu mér fyrir einhverju síðan á bókina Magic eftir Rhondu Byrne, en hún er sú þriðja í bókaröðinni The Secret (Leyndarmálið). Þessi bók fjallar eingöngu um þakklæti frá hinum ýmsu sjónarmiðum og um iðkun þess.
Loks núna í lok ágúst síðastliðnum var kominn tími og tækifæri til að lesa bókina og um leið og ég byrjaði að lesa þá fann ég að þarna var eitthvað mjög merkilegt á ferð. Auk þess að fjalla almennt um gildi þakklætis þá er í bókinni 28 daga prógram af þakklætisiðkun. Á hverjum degi er gefið einfalt verkefni sem hægt er að innleiða í daglegt líf og hugmyndir um mismunandi leiðir gefnar til að stunda þakklæti markvisst.
Mér fannst þetta snilld og lagði til við manninn minn hvort við ættum að prófa þetta saman í mánuð. Það lagðist vel í hann þar sem þakklæti er einnig mjög ofarlega á lista hjá honum í hans andlegu iðkun. Þannig að stað fórum við. Og mér fannst þetta svo mögnuð upplifun að ég finn mig knúna til að koma áhrifum þessa mánaðar á framfæri við hvern þann sem hlusta vill, ef einhver skyldi vilja skoða þennan möguleika til að upplifa betri lífsgæði.
EKKERT HÁLFKÁK OG AÐ STÝRA HUGANUM
Ég er yfirleitt ekki þekkt fyrir neitt hálfkák í lífinu þannig ég fór svolítið alla leið þessa 28 daga. Um leið og ég vaknaði á morgnana þá var fyrsta hugsunin, “takk fyrir” eða “þakka þér”. Ég fann að stundum vildi hugurinn leita í eitthvað kunnulegt far eða límast strax við eitthvað sem var í gangi daginn á undan eða á döfinni. En þarna var ég markvisst að stýra huganum beint inn í að segja “takk fyrir”. Og svo stýrði ég huganum áfram í að þakka fyrir allt það sem fyrir augu bar á hverjum morgni; takk fyrir góðan svefn eða þann svefn sem ég hafði þó fengið, takk fyrir dásamlegu sturtuna mína og hið undursamlega rennandi vatn sem einhver hefur haft fyrir að bora fyrir og leiða inn í hús; takk fyrir handklæðið mitt og fötin mín, húsið sem ég bý í, matinn sem ég var að borða, t.d. jarðaberin sem uxu einhverstaðar úti í heimi og einhver hafði fyrir því að setja þau í box og flytja til Íslands (!), takk fyrir manninn minn og dóttur hans, takk fyrir þennan magnaða líkama sem hefur borið mig alla leið í þessu lífi og er í sjálfu sér undur sem ég get ekki útskýrt o.s.frv.
Á GÓÐUM DEGI
Á góðum degi eftir svona morgun þá fór ég fljúgandi á rósrauðu skýi út í daginn, himinlifandi yfir öllum þessum stórkostlegu og oft einföldu hlutum sem ég hef afnot af á hverjum degi og hef yfirleitt tekið sem sjálfsögðum hlut. Hvernig gat ég tekið þeim sem sjálfsögðum! Það er undur að hafa þessi forréttindi sem við yfirhöfuð lifum við á Íslandi.
Svo hélt ég áfram inn í daginn með sterkum ásetningi að stýra huganum inn í markvisst þakklæti yfir öllu sem var með mér þann daginn, með verkefni dagsins úr bókinni Magic efst í huga. Þau voru sem betur fer yfirleitt frekar einföld svo hægt var að grípa þau og setja þau inn í annasama daga. Þannig meira og minna allan daginn var ég að fylla hugann af þakklæti yfir smáu og stóru með fullt af nýjum vinklum og hugmyndum úr þessari frábæru bók.
MISJAFNIR DAGAR
Og áhrifin fannst mér ekki láta á sér standa. Ég fann fljótlega að vellíðunarstuðullinn minn sem er yfirleitt ágætur reis margfalt. Á góðum dögum sveif ég um annir dagsins svo óumræðilega glöð og ánægð að mér fannst það eiginlega fáránlegt, en svoleiðis var það nú samt. Á miðlungsdögum lyftust dagarnir samt á mun hærra plan en annars hefði orðið. Og á erfiðum, áskorandi dögum lyftust þeir þó upp í mun ásættanlegra og betra ástand með þeim sterka ásetningi að stýra huganum að öllu því sem ég gæti verið þakklát fyrir.
ÁHRIFIN
Ég fann líka að ég varð fljótlega mun orkumeiri, einnig skýrari í huganum og átti auðveldar með að ná utan um allt sem þurfti að gera. Ég á það til að vera stundum yfirþyrmd af öllu því sem liggur fyrir hjá mér í miklum önnum, en þarna fannst mér ég ná mun betri tökum á huganum og undirliggjandi streitu, sem og að hafa mun betri yfirsýn yfir verkefnin og annirnar. Þó ég væri alls ekki að hugsa eins mikið um verkefnin og áður, þar sem allar hugsanir meira og minna fóru í að þakka fyrir J! Og ég fann yfirhöfuð fyrir meiri ró hið innra. Mér fannst andrúmsloftið á heimilinu mínu líka verða enn betra og viðmót fólks sem ég mætti yfir daginn breyttist sömuleiðis. Mér fannst ég fá oftar ótrúlega góða þjónustu, fallegra viðmót og spontant gleði og kærleika sem kom mér á óvart. Ég gleymi því ekki eftir eina eða tvær vikur af þessari iðkun að ég var að útrétta og hafði fengið frábæra þjónustu í einni verslun. Keyrði svo að gatnamótum og hleypti manni á hjóli yfir gangbrautina og hann skælbrosti og smellti á mig fingurkossi á leið sinni yfir. Mér fannst þetta svo skondið því þetta er ekki venjulegt viðmót sem mér finnst ég mæta á okkar góða landi og þakkaði auðvitað fyrir þessa skemmtilegu uppákomu! Ég veitti því líka eftirtekt að mér fannst ég sofa betur, vakna auðveldar og líða betur líkamlega. Undanfarnar vikur finnst mér líkaminn líka vera sterkari en áður; ég finn meiri léttleika líkamlega, huglægt, tilfinningalega og andlega. Þó að ég hafi unnið einstaklega mikið í mér í fjölda ára og er yfirhöfuð frekar glaðleg og bjartsýn manneskja þá fann ég ótrúlegan mun sem mér þótti svo eftirtektarverður að ég finn mig knúna til að deila því með öðrum.
STUÐNINGUR FRÁ MANNINUM MÍNUM
Ég hef líka fundið mun á mínum framkvæmdarkrafti, áræðni, betri samskiptum, og líka af einhverjum ástæðum fundið meiri tíma til að hvíla mig og vera með sjálfri mér sem hefur komið mér á óvart í öllum mínum önnum undanfarið. Og það sem mér fannst svo merkilegt við þessa upplifun var að ég gat borið þetta undir manninn minn og fengið stuðning í að halda að ég væri ekki að verða eitthvað biluð og afvegaleidd á einhverju bleiku glapsýnisskýi þakklætis! Hann var meira og minna að upplifa nákvæmlega það sama sem gaf mér vissu um að ég væri ekki að verða eitthvað skrítin, heldur að þetta væri raunveruleg líðan.
MÁ MANNI LÍÐA SVONA VEL?
Annað sem kom mér á óvart voru hugsanir sem komu upp um hvort það væri “í lagi” að líða svona vel. Þetta væri nú ekki alveg “normalt” og að eitthvað slæmt hlyti nú að fara að koma fyrir. Það gæti nú varla verið að staðaldri svona gott o.s.frv.! Mér fannst áhugavert að verða vör við þetta innra “viðnám” sem kom upp við þessa dýpri iðkun sem vildi greinilega spyrna mér í gömul mynstur. Ég þurfti því stundum að horfast aðeins í augu við sjálfa mig og skoða hvaða gömlu hugform og ímyndir væru í gangi sem segðu að mér mætti ekki líða “of vel”, að ég ætti það ekki skilið, eða það hreinlega mætti bara ekki því þá gæti eitthvað slæmt komið fyrir, sem eru gamlar hugsanir og skilaboð frá æsku.
Á RAUNSÆIS NÓTUM
Auðvitað er ég líka raunsæ, og það hafa alveg komið upp erfiðar áskoranir í mínu lífi á þessu tímabili sem um ræðir þar sem ég hef þurft að staldra við, skoða og vinna úr, sem og að leita mér hjálpar hjá mínum stuðningsaðilum til að skoða mín viðbrögð og annarra. En á þessum tíma hefur mér fundist auðveldara að vinna úr slíkum áskorunum og hef mun fyrr náð minni fyrri gleði og vellíðan. Erfiðar uppákomur og áskoranir virðast ekki hafa rist alveg eins djúpt, skrápurinn orðið öflugri gegn erfiðu ytra áreiti og viðkvæmu blettirnir mínir ekki eins áþreifanlegir. Ég er líka meðvituð um að áskoranir munu halda áfram að koma í lífinu en mér finnst ég sterkari á velli með þetta öfluga tæki til að takast á við þær.
HVAÐ EF ALLIR IÐKUÐU ÞAKKLÆTI?
Ég hef stundum hugsað á þessu tímabili: Hvað ef allir myndu nú iðka þakklæti á svona markvissan hátt?! Hvernig væri okkar þjóðfélag þá?! Hvernig væru almenn samskipti og almenn líðan?! Mig grunar að við tökum oft okkar almennu gæfu og góðu lífsskilyrði sem sjálfsögðum hlut og borðum okkar mat, notum okkar tölvur, internetið, heita vatnið og rafmagnið án þess að hugsa útí hvað við erum ótrúlega heppin! Í hvert skipti sem ég fer núna út í Bónus þá fer ég stundum í ákveðna andakt yfir þessum allsnægtum sem þar eru! Ég finn þakklætið gagntaka mig að ég þurfi nú ekki að fara út að veiða eins og forfeður mínir eða bíða marga mánuði eins og foreldrar mínir eftir að fá epli og appelsínur á jólunum! Hvílíkt lán! Og þó maður eigi ekki endilega milljónir í bankanum þá finnst mér ég búa við ótrúlegt ríkidæmi og það er svo gott að líða þannig!
FRÁ ORKULEGU SJÓNARMIÐI
Sem meðferðaraðili sem vinnur með orku allan daginn þá hef ég líka tekið eftir hvernig þessi iðkun þakklætis virkar á orkukerfið. Það að stýra huganum á svona markvissan hátt hefur gríðarleg áhrif á huglæga orkusviðið okkar, sem í kjölfarið hefur mjög sterk áhrif á tilfinningasviðin, og hvort tveggja hefur sterkari áhrif á líkamann en okkur grunar. Betri líkamleg og tilfinningaleg líðan hefur síðan endurvarpandi áhrif á huglæga sviðið og almenn tíðni orkusviðsins eykst til að mynda betra jafnvægi og skapa betri almenna líðan. Orkulega hefur þetta svo líka áhrif á umhverfið þannig að öðrum líður betur í nærveru manns. Nærvera og orkulegt ástand hefur mun meiri áhrif á umhverfið en okkur grunar, því öll erum við að spila saman í einni stórri orkusúpu! Þar að auki tengir iðkun þakklætis saman huga og hjarta. Þakklæti er mjög hjartalæg iðkun og virkjar sterkt tilfinningar í hjartaorkustöðinni og galopnar hana. Það að koma jafnvægi á huga og hjarta hefur verið sannað með rannsóknum að hefur djúp og sterk árhif á ónæmiskerfið, almennan hamingjustuðul og betri samskipti
NÚVITUND OG UPPÁHALDS TÆKI Í TÆKJAB0XINU
NÚVITUND OG UPPÁHALDS TÆKI Í TÆKJAB0XINU
Ég hugsaði líka á þessum tíma að þessi iðkun þakklætis væri ein besta leiðin sem ég hefði kynnst til að koma mér inn í núið og styrkja mína “núvitund.” Ef ég fann að hugurinn var farinn að reika og koma jafnvel upp með erfiðar hugsanir á stundum þá beindi ég huganum strax að því sem ég gæti verið þakklát fyrir í umhverfi mínu þá stundina og kom þannig mínu huglæga ástandi beint inn í núið, núllstillti huga minn og jók minn vellíðunarstuðul samtímis. Ég verð að segja að þessa stundina eru mín uppáhalds tæki í mínu tækjaboxi til betra lífs og til að auka mína með-vitund: MARKVISS IÐKUN ÞAKKLÆTIS, Hugleiðsla, og Ho´oponopono heilunarbænin “mér þykir þetta leitt, fyrirgefðu, takk fyrir, ég elska þig, (I´m sorry, Please forgive me, Thank you, I love you),” sem og auðvitað að hlúa að góðu matarræði, hreyfingu, hvíld, að fylgja minni ástríðu í lífinu og að stunda bænir þegar ég þarf á þeim að halda o.s.frv.
(Upplýsingar um Ho´oponopono má finna á Youtube og hér er grein um þetta kerfi http://www.self-i-dentity-through-hooponopono.com/assets/who-english-abridged.pdf )
(Joe Vitale skrifaði líka bók um Ho´oponopono og kynni hans af Hew Len sem heitir “Zero Limits”. Viðtöl við Joe Vitale og Hew Len má líka finna á Youtube.)
Ég hef stundað sjálfseflingu og huglæga rækt nú í hartnær 30 ár. Ég hef einnig kynnt mér mjög mikið varðandi mataræði og rækt líkamans, sem og virði djúprar tilfinningalegrar vinnu á heilsu líkama og sálar. En ég hef ekki orðið svona áþreifanlega vör við áður hvað þessi huglæga rækt við iðkun þakklætis og þessi tenging huga og hjarta getur lyft öllum þessum þáttum á þetta hærra plan og haft þessi samþættandi áhrif. Eins og maðurinn minn orðaði það þá hefur honum fundist hann vera hamingjusamari á þessum undanförnum vikum en yfirhöfuð áður og stundum fundist hann bókstaflega upplifa að líf hans sé “himnaríki á jörðu” með þessari iðkun.
OG ÞANNIG ER NÚ ÞAÐ!
Og þannig er nú það! Af þessari lesningu allri þá fer það ekki á milli mála að ég er heilshugar að mæla með þessari bók sem og markvissri iðkun þakklætis sem ég tel á þessu augnabliki vera einn af hornsteinum góðrar líkamlegrar og andlegrar heilsu. Huglæg rækt tekur auðvitað tíma. Það tekur tíma að ná stjórn á huganum og hugsunum sem stundum þeytast um og draga mann hingað og þangað. En æfingin skapar meistarann og að mínu mati þá er markviss iðkun þakklætis stórkostlegt tæki til að stýra huganum og manns eigin orku; að “velja” markvisst það innra ástand sem maður vill tileinka sér; að vinna sig markvisst í áttina að því þegar erfiðleikar steðja að og kannski jafnvel á stundum að upplifa “himnaríki á jörð.”
Með ljósi og kærleika
Jóhanna
