Ertu með spurningu?
Message sent Loka

Heilun og samtalsmeðferð

Í augnablikinu get ég því miður ekki bætt við mig nýju fólki í brennan heilun og samtalsmeðferð.  Þér er velkomið að skrá þig á lista hér til hliðar svo ég geti haft samband þegar færi gefst á nýjum tímum.  Einnig er þér velkomið að skrá þig á póstlista hér til hliðar til að fá allar nýjustu fréttir af námskeiðum og starfsemi Jóhönnu Jónasar.  Ef þú ert að leita þér hjálpar þá mæli ég sterklega með áskrift að hugleiðslunum á þessari vefsíðu þar sem þær geta stutt þig við að að skapa betri líðan á öllum sviðum.  Ég hef reynt að hafa verðið eins sanngjarnt og mér er unnt.  Þú getur gerst áskrifandi með því að smella á þennan hlekk “Hér“.  Þó ég geti ekki gefið þér tíma þá hvet ég þig til að lesa allt um brennan heilun og samtalsmeðferð hér að neðan og annarstaðar á vefsíðunni.

Kærleikskveðja.
Jóhanna 

Ásamt Brennan heilun þá býð ég einnig upp á tíma í Heildrænni samtalsmeðferð, en úr því fagi útskrifaðist ég vorið 2015 eftir 2 ára framhaldsnám í Barböru Brennan School of healing (sem Brennan Integrative Practitioner). Til að sjá nánar um Brennan heilun smellið hér

Í Heildrænni samtalsmeðferð er leitast við að samþætta hið huglæga, tilfinningalega, andlega og líkamlega, og skoðað hverjar grunnorsakir vandamála í lífi einstaklings kunna að vera.  Lífið er skoðað í samhengi og unnið í að losa fyrirstöður (blokkeringar) sem gætu legið í tilfinningum, huga og líkama út frá áföllum og/eða mótun í uppeldi og öðrum erfiðleikum í lífinu.

Mikið er hugað að líkamsvitund í meðferðinni og hvar tilfinningaþungi/hleðsla kann að mynda fyrirstöðurnar sem og hvernig hugur, tilfinningar og líkami spila saman ásamt hinum andlega (spiritual) þætti ef það á við.

Ég styð skjólstæðinga í að kynnast sjálfum sér betur og að auka meðvitund um atferli þeirra í lífinu, t.d. hvað hindrar hann/hana í að ná árangri, hvaða ósjálfráðu tilfinningaviðbrögð kunna að valda örðugleikum í samskiptum og hvað kunni að liggja að baki vanlíðan, streitu, depurð, þunglyndi, orkuleysi, síþreytu og erfiðum tímum í lífinu, sem við mætum öll á lífsins leið.

Í hverjum tíma vinn ég mikið með hvað er til staðar hér og nú.  Nám mitt og reynsla gerir mér kleift að fylgjast grannt með orkuflæði skjólstæðingsins og greina hvar og hvernig fyrirstöður kunni að liggja. Ég reyni að benda á góð ráð sem gætu hjálpað viðkomandi í leit að betri líðan ef við á og vinn út frá djúpri samkennd og kærleika.

Margir koma til mín sem eru að glíma við erfið tímabil í lífinu, og/eða vilja vinna úr sorg eða áföllum, eiga í samskiptaörðugleikum, eru að leita að tilgangi í lífinu, finna fyrir óskilgreindri vanlíðan, orkuleysi, þunglyndi og almennri vanlíðan o.s.frv.  Einnig fæ ég mikið af fólki til mín sem vill læra að þekkja sig betur, sjá líf sitt í betra samhengi og vill ná betri/meiri árangri í sjálfsvinnu sinni.

Ýmist er hægt að velja Heildræna samtalsmeðferð eingöngu eða sambland af tímum með Heildrænni samtalsmeðferð og Brennan heilun.  Í samblönduðum tíma þá er byrjað á samtalsmeðferðinni og seinni hluti tímans er varið á bekknum í heilun.

Í byrjun hvers tíma er sest niður og rætt hvað þig langar að skoða og vinna með, síðan fer fram vinna á bekk þar sem þú leggst að fullu klædd/klæddur og lætur fara vel um þig.

Þetta heilunarkerfi er mjúk en mjög öflug leið til að hreinsa, hlaða og jafna orkukerfið, sem svo getur hjálpað til við að ná aftur heilsu; líkamlegri, tilfinningalegri og andlegri eins og fram kemur á síðunni um Brennan Heilun.

Hvað viðkomandi kemur í marga tíma er mjög persónubundið.  Sumum nægir að koma í einn tíma til að hlaða og endurnæra orkukerfið ef ekki mikið bjátar á.  Fyrir aðra kann þó að vera betra að koma í nokkra tíma eins og í öðrum hefðbundnum meðferðum.   Út frá minni reynslu og annarra hef ég oft séð mjög góðan árangur af því.  En eins og fyrr segir er það mjög einstaklingsbundið hvað er best í hverju tilfelli og er það eitthvað sem hver og einn finnur hjá sér.

Einnig er hægt að bóka tíma í fjarheilun.  Það hef ég líka lært í þessu námi.  Vinsamlega hringið eða sendið póst fyrir frekari upplýsingar um það.